Jack Ma, stofnandi og stjórnarformaður Alibaba Group Holding Ltd. fundaði í dag með Donald Trump, tilvonandi forseta Bandaríkjanna. Saman ræddu þeir um störf og tækni, en samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni vildi Trump fá hugmyndir sem gætu auðveldað smáum fyrirtækjum í Bandaríkjunum að selja varning til Kína.

Eftir fundinn hrósaði Trump Jack Ma, en hann telur þá geta náð stórkostlegum árangri saman. Sumir hafa bent á það að fundurinn kunni að renna illa í kínversk stjórnvöld, þar sem Trump hefur hótað að reisa tollamúra til þess að draga úr innflutningi frá Kína.

Samkvæmt Twitter síðu Alibaba Group gekk fundurinn vel, en þar mátti lesa stutt tíst um óskir fyrirtækisins um að opna markaði í Kína fyrir bandarískum smáfyrirtækjum og bændum.