Stofnandi netverslunarinnar Alibaba og greiðslumiðlunarinnar Alipay, Jack Ma, hefur ekki sést opinberlega í tvo mánuði, þar á meðal ekki í eigin raunveruleikaþætti.

Eins og Vi ðskiptablaðið sagði frá fyrir jól reyndi Ma að friðþægja stjórnvöld í kommúnistaríkinu með hlutum í fyrirtæki sínu í kjölfar þess að þau stöðvuðu það sem átti að verða stærsta hlutafjárútboð sögunnar eftir gagnrýni Ma á ræðu Xi Jining forseta landsins.

Hlutabréfaverð Alibaba hafa lækkað um fjórðung síðan þau fóru hæst í október skömmu eftir ummæli Ma að því er DailyMail greinir frá. Þar með hafa 10 milljarðar bandaríkjadala, eða andvirði tæplega 1.272 milljarða íslenskra króna, þurrkast út af auði Ma, sem við það hefur fallið í þriðja sæti yfir ríkustu menn landsins.

Jack Ma, sem er fyrrum kennari og einn frægasti frumkvöðull heims, hefur lengi verið áberandi í kínversku þjóðlífi, jafnvel leikið kung fu meistara í bíómynd ásamt því að vera í hópi dómara í frumkvöðlaþætti um viðskiptahetjur Afríku.

Þurrkaður út af mynd

Í kjölfar þess að hann hvarf úr hópi dómaranna var hann fjarlægður úr hópmynd af dómurunum á vefsíðu þáttarins, Africa´s Business Heroes, en lokaþátturinn fór fram í lok nóvember. Skömmu áður en hann hvarf af sjónarsviðinu birti hann tíst um að hann hlakkaði mikið til að hitta þátttakendur og eina sem hefur heyrst er frá talsmanni Ali Baba er að hann sé vant við látinn.

Skömmu fyrir vel heppnað hlutafjárútboð Ant Group, sem heldur utan um fjártæknilausn Alipay greiðslumiðlunarinnar, eða í október síðastliðnum, hvatti Ma til umbóta í landinu þar sem reglugerðarumgjörðin takmarkaði nýsköpun og líkti þeim við klúbb gamla fólksins.

Ræðan vakti upp reiði í kínverska kommúnístaflokknum sem hefur öll völd í ríkinu, enda litu stjórnarherrar í honum á gagnrýnina sem árás á vald flokksins sem aftur leiddi til þess að hann var skammaður opinberlega og útboðið á Ant Group stöðvað.

Jafnframt var honum ráðlagt að halda sig í landinu áður en samkeppnisyfirvöld fóru í ítarlega rannsókn á Alibaba Group Holding sem hófst á aðfangadag. Jafnframt skipuðu stjórnvöld fyrir um að Ant Group ætti að draga úr starfsemi sinni.

Fjöldi gagnrýnenda horfið, m.a. rænt frá Hong Kong

Stjórnvöld í kommúnistaríkinu hafa löngum látið gagnrýnendur hverfa, til að mynda hvarf fasteignamógúllinn Ren Zhiqiang eftir gagnrýni á hvernig Xi forseti meðhöndlaði kórónuveirufaraldurinn.

Árið 2017 hvarf auðjöfurinn Xian Jianhua frá hóteli sínu í Hong Kong, en hann var tekinn og færður á meginlandið, þó að á þessum tíma áttu aðrar reglur að gilda í borginni sem áður var bresk nýlenda. Þar er hann sagður vera í stofufangelsi en engar fréttir hafa borist um hvar.

Jack Ma hefur í gegnum árin ræktað samskipti við lönd víðs vegar um heim, meðal annars með því að gefa tvö þúsund öndunarvélar til New York á sama tíma og deilur stjórnvalda í Kína og Bandaríkjunum stóðu sem hæst. Þar á meðal hefur hann komið til Íslands þar sem hann borðaði á veitingastaðnum Fönix í Ártúnsholtinu eins og Vísir sagði frá á sínum tíma.