Gary Jackson tekur í dag við stöðu forstjóra Tempo af Ágústi Einarssyni sem gengt hefur stöðunni undanfarin ár. Tempo ehf. er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í lausnum tengdum verkefnastýringu og tímaskráningu. Fyrirtækið veltir 22 milljónum dollara árlega og þjónustar yfir 12 þúsund viðskiptavinum í 120 löndum. Um 100 sérfræðingar starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi, Kanada og í Bandaríkjunum. Tempo er í 55% eigu Diversis Capital og 45% eigu Origo hf..

Gary Jackson hefur samkvæmt tilkynningu frá Origo 25 ára reynslu sem leiðtogi hjá hugbúnaðarfyrirtækjum, með sérstaka áherslu á gerð hugbúnaðarlausna sem stuðla að aukinni framleiðni fyrirtækja.

„Ágúst Einarsson hefur sem forstjóri Tempo stýrt árangursríkri uppbyggingu og stjórnun félagsins til dagsins í dag.  Ágúst hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í næsta áfanga í uppbyggingu Tempo, sem verður með áherslu á starfsemi í Bandaríkjunum, og hættir því sem forstjóri á þessum tímamótum.  Ágúst mun engu að síður verða félaginu og nýjum forstjóra innan handar næstu mánuði sem ráðgjafi við greiningu vaxtartækifæra og þróun á markaði,“ segir ennfremur í tilkynningu frá Origo til Kauphallarinnar.