Óvenjumargir bættust við íslenskan vinnumarkað í mars, eða 8 þúsund manns frá mánuðinum á undan, en heildaraukningin frá því í mars 2016 er um 15.500 manns, sem gerir 8,4% aukningu á einu ári.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans, en þar segir jafnframt að það kunni að vera að þessar tölur, sem koma frá Hagstofu Íslands, verði lækkaður á ný.

Þegar skoðað er svokallað hlaupandi meðaltal til 12 mánaða var fjölgunin 7.400 manns á þessu tímabili, sem gefur 4,4% aukningu, sem þeir segja að gefi betri mynd af þróuninni.

Hlutfall erlendra ríkisborgara orðið 9,3%

Á sama tímabili fjölgaði þjóðinni um 5.800 manns, eða um 1,7% sem segir að starfandi fólki hafi fjölgað meira en íbúum landsins. Erlendum ríkisborgurum með búsetu hér ´alandi fjölgaði um 3.800 manns frá 1. ársfjórðungi ársins 2016 til sama tímabils árið 2017, og fór hlutfall þeirra úr 8,3% í 9,3% á tímabilinu.

Atvinnuþátttakan nú um stundir er mjög há í sögulegu samhengi eða 84,9% af heildarmannfjölda á vinnualdri nú í mars, en hlutfall starfandi var 83,4% á sama tíma. Ef aftur er skoðað miðað við 12 mánaða meðaltal var hlutfall starfandi 81,4% sem er hæsta gildi frá árinu 2004.

Atvinnuleysi ýtir ekki upp verðbólgu

Atvinnuleysið í mars nam einungis 1,7% en meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða var 2,9%, sem er lægsta atvinnuleysi sem hefur mælst síðan í árslok 2008.

Samkvæmt tölum vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi 2,4% í mars og 2,3% að meðaltali síðustu 12 mánuði. Segir í Hagsjánni að ástæða þess að mikil eftirspurn eftir vinnuafli hafi ekki leitt til aukins verðbólguþrýstings sé vegna styrkingar krónunnar annars vegar og hins vegar vegna mikils innflutnings erlends vinnuafls.

Einnig kunni aukin samkeppni að hafa þar áhrif. Vinnutími virðist jafnframt haldast óbreyttum svo fjölgun vinnustunda kemur fyrst of fremst til af fjölgun starfandi fólks. Segja þeir að það kunni að vera að ýmsir jaðarhópar á vinnumarkaði sem gjarnan komi til starfa þegar vel ári, hafi áhrif í þessu sambandi, sem og að það kunni að vera að hlutastörfum hafi fjölgað.