Fjölgað var um tvo í stjórn Nýherja á aðalfundi félagsins sem haldinn var síðastliðinn föstudag. Ný í aðalstjórn eru Jafet S. Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Veigari fjárfestingafélagi, og Hildur Dungal, lögfræðingur. Auk þeirra sitja Benedikt Jóhannesson, Árni Vilhjálmsson og Guðmundur Jóh. Jónsson í aðalstjórn félagsins. Þá var Marta Kristín Lárusdóttir, lektor í Tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík, sjálfkjörin varamaður í stjórn Nýherja hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Benedikt Jóhannesson stjórnarformaður Nýherja hf. sagði í ræðu sinni á aðalfundi fagna því að tvær konur hefðu gefið kost á sér til starfa í stjórn, önnur sem aðalmaður og hin sem varamaður.

“Það er vel við hæfi að þetta beri upp á sama dag og 100 ár eru frá fæðingu Auðar Auðuns, fyrstu konunnar sem gegndi embætti borgarstjóra og ráðherra. Þetta verður í fyrsta sinn sem konur koma að stjórn félagsins, en vonandi verður þetta einnig til þess að efla hlut kvenna í stjórnunarstöðum í félaginu. Það er eindreginn vilji stjórnar að svo verði,” sagði Benedikt.