Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Veigs fjárfestingafélags og fyrrverandi framkvæmdastjóri VBS fjárfestingabanka, segist undra sig á áherslum Fjármálaeftirlitsins þegar kemur að meðhöndlun trúnaðarupplýsinga en hann var nýlega dæmdur fyrir brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki vegna meðhöndlunar trúnaðarupplýsinga.

,,Ég er mjög hissa á því hvað lítið heyrist í Fjármálaeftirlitinu yfir brotum á þessum trúnaði gagnvart tugum manna þar sem virkilega miklar trúnaðarupplýsingar liggja á borðum aðila úti í bæ. Af hverju er ekki farið inn í DV og lagt hald á þessar trúnaðarupplýsingar,“ sagði Jafet og vitnaði til nýrra upplýsinga blaðsins sem augljóslega eru fengnar úr lánabókum Kaupþings.

Fjármálaeftirlitið kærði Jafet Ólafsson, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóra VBS fjárfestingabanka, til lögreglunnar fyrir að hafa afhent Sigurði G. Guðjónssyni hljóðupptöku af samtali Jafets og Geirs Zoëga árið 2006. Í mars síðastliðnum var hann dæmdur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða 250.000 krónur í sekt.

Hefur áfrýjað

Jafet sagðist hafa verið mjög ósáttur við dóminn í málinu og hefur áfrýjað því til Hæstaréttar þar sem málið verður tekið fyrir næsta haust. Honum var gert að greiða 250.000 krónur í sekt í málinu eins og áður sagði sem Jafet sagði að væri að undir þeim viðmiðum sem Hæstiréttur styddist við vegna áfrýjunar. Eigi að síður hefði rétturinn tekið við málinu. ,,Það verður fróðlegt að sjá hvernig tekið verður á málinu þar vegna þess að miklu meiri trúnaðargögn hafa verið á sveimi síðar.“

Jafet segir að í hans máli hafi enginn borið skaða af og umræddar upplýsingar fóru aðeins á milli tveggja manna. ,,Það vildi svo óheppilega til að þeir sátu við sama borðið í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar, Sigurður G. Guðjónsson og Geirs Zoëga. Það voru ekki nokkrar tölur nefndar í þessu sambandi.“

En Jafet segist hafa miklar athugasemdir við málatilbúnað Fjármálaeftirlitsins, sérstaklega í ljósi meðhöndlunar þess á öðrum trúnaðarupplýsingum.

Var nógu vitlaust til að FME skyldi málið

,,Í fyrsta lagi fannst mér þetta mál mitt vera svo lítilfjörlegt en það var nógu vitlaust til þess að Fjármálaeftirlitið skildi það og náði utan um það. Það nær hins vegar ekki utan um þessi stóru mál og það er allt vaðandi í þeim í þjóðfélaginu. Ég hef ekki séð að Fjármáaleftirlutið hafi haft nokkra burði til þess að rannsaka það þó menn séu að brjóta trúnað þvers og kruss.“

- Nú var farið í aðgerðir gegn þér af því að talið var að þú hefðir brotið trúnað. Nú virðist manni hins vegar að lánabækur bankanna séu orðin opinber gögn. Mönnum finnst það kannski sjálfsagt með tilliti til gagnsæis?

,,Það stendur í lögunum að lánamál og allt sem lýtur að þeim, auk upplýsinga um innistæður, sé bundið trúnaði milli viðkomandi aðila og innlánastofnanna. Það á ekki að bera það á torg. Maður er því mjög hissa á því hvað Fjármálaeftirlitið hefur látið lítið í sér heyra varðandi þetta mál. Það lýtur ekki bara að DV því Mogginn var líka með miklar upplýsingar af sama toga. Það mál er reyndar í einhverri vinnslu. Úr því að þeir kærðu mig hljóta þeir að kæra hundrað annarra.“

- En finnst þér að þarna hafi orðið stefnubreyting eða upplifir þú það sem uppgjöf hjá Fjármálaeftirlitinu? ,,Mér finnst að þeirra fókus hafi verið rangur. Þeir voru að eltast við mitt mál sem skiptir ekki nokkru máli og enginn bara skaða af auk þess málið fór aldrei í fjölmiðla. Upplýsingarnar fóru til eins aðila úti í bæ, hann einn sá þetta en síðan urðu þetta opinber gögn þegar þetta fór fyrir dóm. Mér finnst að áherslur hjá Fjármálaeftirlitinu hafi verið kollrangar. Bæði í þessu máli og það sýnir sig í Icesave-málinu en þar voru þeir úti í skógi, týndir.

Þeir eyddu töluverðu púðri í þetta mál mitt og það voru töluverðar bréfaskriftir þar sem maður var að reyna að útskýra af hverju ég gerði þetta til að standa við minn trúverðugleika sem miðlari.

Ég hef reyndar mínar skýringar á því af hverju þetta var. Fjármálaeftirlitið flokkar menn og Sigurður G. Guðjónsson var „persona non grata“ í þeirra augum eftir samskiptin við þá út af Sparisjóði Hafnarfjarðar."