Bú Jafets Ólafssonar, fyrrum framkvæmdarstjóra VBS fjárfestingarbanka, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. „Þetta eru hlutabréfa- og skuldabréfasöfn sem bankinn taldi svakalega fín bréf á sínum tíma,“ svarar Jafet aðspurður að því hvaða olli gjaldþrotinu. Stærsti kröfuhafi hans er Landsbankinn. Enn hefur ekki verið gengið frá uppgjöri gjaldþrotsins og verið er að reyna að semja við lánadrottna. Jafet er bjartsýnni en svartsýnni á að halda eignum sínum. „Þetta er allt í góðu, ég held að þetta leysist allt,“ segir Jafet.

Salan ekki verið tilkynnt

Jafet var hluthafi í félaginu Veigur ehf. og samkvæmt ársreikningi félagsins ársins 2009, sem skilað var inn 25.ágúst 2010, var hlutur Jafets 70%. Kona hans, Hildur Hermóðsdóttir, átti þá 30% í Veig ehf. Aðspurður segir Jafet félagið ekki vera sitt í dag. „Ég er ekki með það félag. Það er búið að selja það fyrir löngu.“ Jafet vildi ekki gefa upp hver ætti félagið í dag. Ekki hefur verið tilkynnt um breytingar á eignarhaldi til fyrirtækjarskrár og samkvæmt heimildum þeirra er Jafet enn skráður fyrir 70% hlut félagsins og kona hans 30%. Þá sagðist Jafet ekki vera skráður hluthafi í neinu félagi eins og er.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.