Í nýrri verðbólguspá greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital gerir spámaðurinn, Snorri Jakobsson, ráð fyrir að dagur einhleypra hafi lítilsháttar áhrif á verðlagsmælinguna í nóvember. Segir Snorri að áhrifin gætu orðið nær engin en einnig töluvert meiri en ráð er fyrir gert. Það ráðist allt af því hvaða daga Hagstofan mældi vöruverð og hvort nettilboð hafi ratað inn í verðmælinguna. Gerir hann ráð fyrir 0,22% hækkun vísitölu neysluverðs (vnv) í nóvember og að 12 mánaða verðbólga skjótist í 3,7%.

Hækkun á óhollum mat

„Í október hækkaði matvælaverð óvænt um 1% og langt umfram væntingar spámanns og var það helsta frávikið í síðustu spá. Matvælaverð hefur hækkað um 7,65% síðastliðna 12 mánuði. Á sama tíma og gengi krónu hefur veikst um rúmlega 16% gagnvart evru. Gróflega er 50% matvara og aðfanga innflutt. Áhrif gengisveikingar krónu virðist að nær öllu leyti vera komin fram í matvælaverði en þau koma fyrst fram þar. Spámaður getur ekki tekið undir með ASÍ að matvælaverð hafi hækkað mikið umfram gengisveikingu. Framlegð smásölufyrirtækjanna ber það ekki með sér. Hann hefur oft séð það verra á yfir 20 ára ferli sem spámaður. Flutningskostnaður hefur líka hækkað í Covid-fárinu. J-Capital gerir ráð fyrir 0,25% hækkun matvælaverðs sem hefur 0,04% áhrif á vnv til hækkunar. Feitt kjöt, sykur og salt hækkar á þessum árstíma og er gert ráð fyrir hefðbundinni hækkun á óhollum mat í nóvember,“ segir í verðbólguspá Snorra.

Dauðakippir eða eðlileg hækkun?

Í spánni er bent á að það hafi verið allt annað en lognmolla á fasteignamarkarði og fasteignaverð hafi hækkað um rúmlega 0,9% að meðaltali á mánuði á fasteignamarkaði.

„Tekið er tillit til fjármagnskostnaðar og greiðslubyrðar við útreikninga á húsnæðislið vísitölu neysluverðs. Horft er til meðaltals greiðslubyrði verðtryggðra vaxta síðustu 12 mánuði. Verðtryggðir vextir hafa verið að hækka og 12 mánaða meðaltal vaxta hefur sáralítið lækkað milli mánaða. Áhrif leiðréttingar vegna greiðslubyrði hefur því væntanlega lítil áhrif á vnv nú. Það er gert ráð fyrir 0,75% hækkun fasteignaverðs í vísitölu sem hefur rúmlega 0,12% áhrif á vnv til hækkunar.“

Leiguverð hafi aftur á móti lækkað örlítið að nafnvirði og umtalsvert að raunvirði. Því sé gert ráð fyrir óbreyttu leiguverði.

„Samtals leggur húsnæðisliðurinn 0,13% til hækkunar vnv. Hækkun vaxta á markaði samfara hækkun fasteignaverðs kemur nú fram í aukinni verðbólgu. Spámaður undraðist yfir gagnrýni á Seðlabankann. Viðbrögð Seðlabanakans voru kennslubókarviðbrögð og lýstu áhyggjum Seðlabanka af gengi, verðbólgu og fjármálastöðugleika. Spámaður J-Capital var jafn feiminn að lýsa yfir stuðningi við Ásgeir eins og við Donald Trump. Hins vegar vöktu orð Ásgeirs athygli að bankinn hafi haft áhyggjur af slaka á fasteignamarkaði. Stóra spurningin er hvort hækkunin muni halda áfram eða hvort það séu dauðakippir í fasteignaverði eftir adrenalínsprautu Seðlabanka?,“ skrifar Snorri.

Séra Brown og Gísli Marteinn

Hann kveðst gera ráð fyrir að fleiri heimili en heimili sitt hafi fyllst af allskonar búsáhöldum á tilboði í nóvember. Því sé gert ráð fyrir um 0,2% lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði sem hafi 0,01% áhrif á vnv til lækkunar. Sömuleiðis ættu einhleypir að fá gott verð á flatskjám til að eyða kvöldinu með Gísla Marteini og Séra Brown. Þeir huggulegu félagar séu Covid-fríir og gert ráð fyrir að lægra verð raftækja og flatskjáa hafi rúmlega 0,01% áhrif á vnv til lækkunar.

Saknar IBIZA

„Það var gott að djamma á IBIZA ´95 og er spámaður í fráhvörfum. Það er þó væntanlega bið eftir að hann komist þar út og nær ekkert flug. Það er gert ráð fyrir óbreyttum flugfargjöldum í nóvember. Barirnir eru lokaðir og það næsta sem hann kemst nálægt IBIZA er mini-barinn á Nordica. Verðið hefur aldrei verið hagstæðara og gert ráð fyrir 7% lækkun á gistingu sem hefur 0,02% áhrif á vnv til lækkunar,“ segir í verðbólguspánni.

Rólegt á eldsneytismarkaði

Loks kemur Snorri inn á að heimsmarkaðsverð á olíu hafi haldist óvenjulega stöðugt síðustu vikur og mánuði en miklar sveiflur séu í olíuverði undir venjulegum kringumstæðum. Því sé gert ráð fyrir óbreyttu eldsneytisverði líkt og í síðasta mánuði.