Reiknuð húsaleiga – sá liður vísitölu neysluverðs sem er ætlað að meta kostan við búsetu í eigin húsnæði og byggir á fasteignaverði – hefur sögulega haft sveiflujafnandi áhrif á vísitöluna.

Þegar illa árar minnkar eftirspurn eftir fasteignum og verðið fellur, eða vex hægar, en á móti veikist krónan og innflutningsverð hækkar. Hið gagnstæða á svo við í uppsveiflum: gengið styrkist og lækkar innfluttan varning í verði, en fasteignamarkaðurinn hækkar á móti.

Þetta hefur að einhverju leyti átt sér stað í núverandi uppsveiflu. Styrking krónunnar hefur lækkað innfluttan kostnað sem veldur minni verðbólgu en ella.

Á móti hefur hinsvegar komið umtalsverð verðhækkun á ýmisskonar innfluttri vöru í erlendum gjaldeyri, sem hefur því ýmist lækkað minna en vonast hafði verið eftir, eða hreinlega hækkað í krónum talið, þrátt fyrir sterkara gengi.

Aðlöguð aðferð jók sveiflur
Í febrúar í fyrra fékk nefnd sem stóð að skýrslu forsætisráðuneytisins um aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs verðvísitölusérfræðinginn dr. Kim Zieschang til að leggja mat á aðferðafræðina við útreikning húsnæðisliðarins hér á landi.

Zieschang kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að aðstæður henti ekki fyrir aðferð húsaleiguígilda, sem hann taldi hættu á að gæfi rangar niðurstöður.

Meðal tillagna hans er að svokölluð aðlöguð aðferð einfalds notendakostnaðar verði skoðuð sérstaklega. Í greinargerð í Hagtíðindum sem skrifuð var í kjölfarið er sú aðferð sögð hafa verið prófuð á gögn frá árunum 1992 til 2019.

Niðurstaðan var sú að aðferðin magnaði upp sveiflur á VNV í stað þess að draga úr þeim, og taldi nefndin af þeim sökum ekki tilefni til að skoða hana frekar. Hún hvetur Hagstofuna þó til að rýna aðrar hugmyndir hans og hvort þær geti leitt til æskilegra umbóta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .