Empower er nýstofnað alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki í jafnréttismálum. Fyrirtækið er vettvangur alhliða ráðgjafar, fræðslu, samvinnu og verkfærakistu jafnréttismála. Fyrirtækið byggir á árangri Íslands, íslenskra fyrirtækja og stofnana og sannreyndri aðferðafræði.

Þau Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, Dögg Thomsen og Dominic Nieper eru stofnendur og eigendur Empower, alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis í jafnréttismálum. Þau byggja á verkefni sem varð til innan Capacent, Jafnréttisvísinum, sem Þórey leiddi þar.

Öll hafa þau starfað sem stjórnendur og ráðgjafar í jafnréttismálum með fyrirtækjum og stofnunum síðustu ár og áratugi. Dögg og Dominic hafa starfað erlendis í um þrjátíu ár og búa því yfir mikilli alþjóðlegri reynslu og tengslaneti.

Fyrirtæki og stofnanir sem þau hafa unnið með starfa í fjölbreyttum geirum en eiga það flest sameiginlegt að vera í karllægum geirum. Þar á meðal eru Háskólinn á Akureyri, Landsvirkjun, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Landsbankinn, Síminn, TM og Fjarðaál. Empower gerði einnig nýverið samning við Alþingi, en fyrirtækið var valið af sjö aðilum sem gerðu tilboð í verkefnið.

Empower hefur sett stefnuna út fyrir landsteinana og eru þau spennt fyrir því að hefja útflutning á jafnrétti, enda hefur Ísland þar mikið fram að færa. Í fyrri störfum sínum skynjuðu þau þörf fyrir fyrirtæki sem sérhæfir sig í jafnréttismálum, í víðara samhengi en launamálum.

Jafnréttisvísirinn er langtímavegferð

Empower skoðar jafnrétti í víðu samhengi með sérstaka áherslu á kynbundna fordóma, menningu og óáþreifanlegar fyrirstöður í jafnréttismálum. Þórey segist hafa fundið það í störfum sínum að jafnlaunastefna dugði ekki til þess að fólk upplifði jafnrétti á vinnustaðnum og út frá því þróaðist hugmyndin að Empower.

Ráðgjöfin byggir á jafnréttisvísinum, 360 gráðu stefnumótunar- og vitundarvakningarverkefni sem tekur á jafnréttismálum fyrirtækja. „Þetta er sannreynd aðferðafræði sem virkar og við vitum ekki til þess að verið sé að bjóða sambærilega nálgun, praktíska en óhefðbundna. Við erum því með ákveðna sérstöðu," segir Þórey.

Jafnréttisvísirinn er fjögurra fasa. Í upphafi er framkvæmd ítarleg greining á stöðu jafnréttismála innan fyrirtækisins þar sem stuðst er við 360°greiningarramma, með bæði eigindlegri og megindlegri nálgun.

Því næst er farið í úrbótavinnu og er lögð mikil áhersla á að allt starfsfólk komi að þeirri vinnu. Þá skiptir jafnframt máli að greiningin hafi verið gerð á þeirra vinnustað, frekar en almennar jafnréttisáskoranir, svo þau tengi við verkefnið. Að lokinni úrbótavinnu er farið í markmiðasetningu og loks hefst innleiðingarhlutinn.

„Jafnréttisvísirinn er vegferð sem fyrirtæki fara í til langs tíma. Þá er mikilvægt að nálgast verkefnið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt," segir Dögg.

Lykilatriði að efnið sé ekki þurrt

Empower leggur jafnframt áherslu á þekkingu og miðlun sem felur í sér ráðstefnuhöld og fyrirlestra. Þá býður fyrirtækið upp á öðruvísi og spennandi vinnustofur þar sem lögð er sérstök áhersla á að varpa ljósi á kynbundna fordóma í menningu fyrirtækja.

Þau segja lykilatriði að efni fyrirlestranna, jafnréttisvísisins og vinnustofanna sé ekki þurrt og sé á mannamáli. „Við erum að nota myndir, sögur og húmor, og notum svo tilvitnanir líka. Við notum allar mögulegar leiðir til að gera efnið eins áhugavert og mögulegt er."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .