Jafnréttisstofa flytur ekki úr núverandi húsnæði sínu að Borgum á Akureyri í fyrirsjáanlegri framtíð. Kristín Ástgeirsdóttir, forstöðukona Jafnréttisstofu, hafði fyrr á árinu bundið vonir við að stofnunin gæti flutt sig úr húsnæðinu, enda leiga þar afar dýr.

Í ljós hafi hins vegar komið að yrði stofnunin flutt myndu fjárframlög til hennar lækka sem samsvaraði lækkuðu leiguverði og því myndi flutningur ekki þjóna tilgangi sínum að mati Kristínar. „Við höfðum vonast til þess að það myndi ekki gerast og að við gætum notað mismuninn í reksturinn,“ segir Kristín.

Hún segir jafnframt að á seinustu árum hafi stofnunin mátt þola meiri niðurskurð en aðrar stofnanir sem tilheyrðu Velferðarráðuneyti.

Í fjárlögum fyrir árið 2010 voru framlög úr ríkissjóði til Jafnréttisstofu 72,4 milljónir á núverandi verðlagi. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að fjárframlög verði 94 milljónir. Kristín segir að auka þurfi fjárframlög til að Jafnréttisstofa geti sinnt hlutverki sínu.