Sveitarfélag Ísafjarðarbæjar hefur skilað inn umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar en þar segir að jafnt og þétt hafi verið grafið undan tilveru Vestfjarða á síðustu árum.

Sem dæmi nefnir umsögnin lokun sparisjóða, pósthúsa og bankaútibúa, brottflutning starfa, sviptingar í rekstri fiskvinnslufyrirtækja, stöðuga fólksfækkun, gífurlegan samgöngukostnað og háan orkukostnað.

Einnig er bent á að íbúum í sameinuðu sveitarfélagi Ísafjarðarbæjar hafi fækkað mikið á síðustu árum en íbúar eru nú 3.600, en voru tæplega 4.500 árið 1999. Á sama tíma hafi aldursdreifing orðið óhagstæðari fyrir sveitarfélagið.

Ísafjarðarbær bendir á fjölda atriða sem hann óskar eftir að ríkisvaldið beiti sér fyrir. Meðal þeirra eru óskir um að fá „alvöru innanlandsflugvöll“ með réttindum til millilandaflugs, og að leiðrétta að fullu kostnað við húshitun til að jafna kostnað á milli kaldra svæða og þar sem hitaveitur eru.

Í umsögn sveitarfélagsins segir einnig: „Á Vestfjörðum hefur löngum búið stolt fólk og veldur því mikilli mæði að að kveða barlóm. Margt smátt gerir eitt stórt og tilkynningar okkar um sífelld boðaföll af ólíkum stærðum má upplifa sem nöldur, en er í raun lækjartif um máða steina - lækja sem safnast saman með tímans þunga nið í straumþunga á, uns ekkert fær stöðvað.“