*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 23. nóvember 2021 12:20

Jafn­­vægi á fast­­eigna­­markaði eftir 3-5 ár

Hannes Steindórsson fasteignasali telur að það vanti a.m.k. fjórfalt fleiri íbúðir til sölu á höfuborgarsvæðinu.

Jóhann Óskar Jóhannsson
Hannes Steindórsson fasteignasali hjá Lind fasteignasölu segir fasteignamarkaðinn ekki hafa róast í kjölfar stýrivaxtahækkana.
Aðsend mynd

Fasteignamarkaðurinn hefur heilt yfir ekki róast í kjölfar stýrivaxtahækkana undanfarna mánaða að sögn Hannesar Steindórssonar fasteignasala hjá Lind fasteignasölu og formanns Félags fasteignasala. „Markaðurinn hefur ekki beint róast nema þá í nokkra daga í kringum stýrivaxtaákvarðanirnar", segir Hannes, en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur hækkað stýrivexti úr 0,75 prósentum upp í 2 prósent á tæplega hálfu ári. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 17,1 prósent á einu ári líkt og Viðskiptablaðið benti á í síðustu viku.

Hannes telur að enn sé langt í land þar til jafnvægi náist á markaðnum. „Það mun taka í kringum þrjú til fimm ár fyrir framboð að ná að anna eftirspurn, nema eitthvað óvænt gerist. Það er mjög lítið til af íbúðumׅ", en Hannes telur einnig að það þurfi að byggja fleiri íbúðir en fyrirhugað er.

„Það eru 240 til 250 eignir í fjölbýli til sölu á höfuðborgarsvæðinu, íbúðirnar ná allt frá Seltjarnarnesi og alla leið til Mosfellsbæ, þannig að það segir sig sjálft að þetta er ekki nægt framboð til að anna eftirspurninni á markaðnum". Hannes telur erfitt að segja til um hversu margar íbúðir þyrftu að vera til sölu á höfuðborgarsvæðinu til að fasteignamarkaðurinn næði jafnvægi á nýjan leik  en giskar á að um 1000 - 1500 íbúðir þyrftu líklega að vera til sölu á svæðinu.