Tuttugu og fimm ár eru um þessar mundir liðin frá því að Jakinn, fyrsti gámakrani Eimskipafélagsins í Sundahöfn, var vígður við hátíðlega athöfn. Með tilkomu hans tók gámavæðing íslenskra skipaflutninga mikið stökk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip en gámakranar Eimskips eru nú fjórir, þar af eru þrír staðsettir á Íslandi og einn í Færeyjum.

Árið 1996 var öðrum gámakrana, Jarlinum, bætt í flotann og sá krani endurnýjaður 2004. Jötunn var síðan vígður árið 2007 en þá var Jarlinn fluttur til Reyðarfjarðar vegna stóraukinna flutninga þar í tengslum við álver Alcoa-Fjarðaáls.

Jakinn er 53 metra hár, vegur 450 tonn og hefur híft tæplega eina og hálfa milljón gáma á þessum árum, eða sem nemur tæplega fimm gámum á hvern núlifandi Íslending.

Í tilkynningunni er rifjað upp að ákvörðun um að reisa kranann var tekin í lok ársins 1983, en stjórnendur Eimskips töldu þessa miklu fjárfestingu vera eðlilegt framhald þeirrar uppbyggingar sem átt hafði sér stað á Sundahafnarsvæðinu, auk þess sem gámakrani jók jafnt hagkvæmni sem öryggi við uppskipun gáma.

Kraninn var síðan reistur sumarið 1984 og var ákveðið að hann skyldi hljóta nafnið Jakinn.

Í frétt Morgunblaðsins um nafngiftina sagði meðal annars árið 1984 : „Hlýtur það að teljast réttnefni því með krananum er hægt að lyfta 32,5 tonnum í einum. Reiknað er með að full afkastageta verði 20-30 gámar á klukkustund.”

Með nafninu var jafnframt verið að heiðra Guðmund J. Guðmundsson, fyrrum formann Dagsbrúnar, sem áratugum saman hafði verið í forystu fyrir reykvíska hafnarverkamenn.

Jakinn hefur þjónað Eimskipafélaginu afar vel í aldarfjórðung og reynst vera mikið happatæki. Lykillinn að þessari góðu endingu er fyrst og fremst afar gott fyrirbyggjandi viðhald í gegnum tíðina. Þá má einnig geta þess að þrír af fjórum núverandi kranastjórum Jakans hafa starfað á honum frá upphafi.