*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 18. júní 2015 16:44

Jakob hættir sem forstjóri Straums

Telur ekki æskilegt að sameinaður banki Straums og MP banka hafi tvo forstjóra.

Ritstjórn
Jakob Ásmundsson hættir hjá Straumi.

Jakob Ásmundsson, forstjóri Straums fjárfestingabanka, hefur samið um starfslok við bankann og mun hætta störfum þegar bankinn sameinast MP banka á næstunni. Starfslokin eru að beiðni Jakobs, er fram kemur í fréttatilkynningu frá Straumi.

Í fréttatilkynningunni er Jakobi þakkað kærlega fyrir framlag sitt til bankans, en hann hefur starfað hjá bankanum í tíu ár. Fyrst var hann framkvæmdastjóri og undanfarin tvö ár hefur hann verið forstjóri.

„Ég tók á sínum tíma þátt í stofnun Straums og hef upplifað bæði súra tíma og sæta með bankanum. Ég hef lengi verið sannfærður um að eðlilegt væri að styrkja stöðu bankans með ytri vexti. Kaup Straums á ráðandi hlut í Íslenskum verðbréfum og stórum hlut í MP banka voru liður í undirbúningi þess samruna sem nú er framundan,“ er haft eftir Jakobi í tilkynningunni.

„Sameinaður banki mun hafa mikið afl, meðal annars vegna sterkrar stöðu ÍV á eignastýringarmarkaði. Fyrir vikið tel ég fjölmörg sóknarfæri framundan. Hins vegar hef ég frá upphafi talið það betra að hafa einn forstjóra í stafni bankans en ekki tvo. Þess vegna kýs ég að stíga til hliðar á þessum tímamótum og óska bæði samstarfsfólki mínu í Straumi og starfsfólki sameinaðs banka alls hins besta.“

Stikkorð: Straumur MP banki fjármál