Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, hefur keypt helmingshlut Birgis Þórs Bieltvedt í veitingastaðnum. Jakob Einar átti helmingshlut á móti Birgi og er því orðinn eini eigandi Jómfrúarinnar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Það er búið að samþykkja kauptilboð og búið að ryðja fyrirvara um fjármögnun úr vegi. Þannig að þetta er allt klárt,“ segir Jakob Einar í samtali við Fréttablaðið. Hann segir kaupverðið vera trúnaðarmál.

Jakob Einar og Birgir keyptu Jómfrúna sumarið 2015 af stofnendunum Jakobi Jakobssyni og Guðmundi Guðjónssyni sem stofnuðu veitingastaðinn.

„Á þeim tíma sem við Biggi höfum átt staðinn saman hefur veltan aukist um 100 prósent og afkoman batnað.“

„Síðan þá hef ég verið að stækka við hlutinn og það er rúmt ár síðan að ég var kominn upp í 50 prósent. Mér fannst kaupin vera eðlilegt framhald,“ segir Jakob Einar.