Að sögn Jakobs R. Möllers hrl. hefur það ekki gildi þó Alþingi samþykki fyrirvara við Icesave-samninginn nema gagnaðilarnir samþykki þann fyrirvara. Hann sagðist hins vegar telja það möguleika að setja hliðarákvæði með samningnum sem gæti boðið upp á opnari túlkun hans síðar.

,,Þingið á eftir að samþykkja ríkisábyrgðina og ef það ætlar sér að breyta samningnum einhliða með því að setja fyrirvara, hvers eðlis sem hann er, þá hefur hann ekkert gildi nema gagnaðilinn samþykki það. Einnig er hægt að líta á þetta sem höfnun og nýtt tilboð út frá samningaréttarlegu sjónarmiði. Mér finnst einfaldara að líta á þetta á hinn veginn að fyrirvarinn hafi ekkert gildi nema gagnaðilinn samþykki.“

Jakob benti hins vegar á þann möguleika að setja inn í nefndarálit leiðbeiningar til stjórnvalda um meðferðina á samningnum en hann taldi það ekki hægt nema það sé bindandi gagnvart gagnaðilanum. Hann sagði að þannig væri hugsanlega hægt að koma að fyrirvörum án þess að setja það inn í lögin sjálf sem hefði ekkert gildi nema gagnaðilinn samþykkti það.

Jakob benti á að í samningnum kæmi fram að það sé unnt að beita vanefndarákvæðum ef samningurinn verður ekki samþykktur á þessu sumarþingi. ,,Tal um það að hægt sé að fresta þessu fram á haustið kemur frá fólki sem hefur ekki lesið samninginn.“

Jakob sagði að líklega væru pólitískar lausnir á málinu áhugaverðari og benti á orðróm um að nú væri verið að vinna að hliðarplaggi sem myndi fylgja samningnum. Slík úrlausn myndi bjóða upp á opnari túlkun. Til þess þarf þó samþykki gagnaðilanna, Breta og Hollendinga.