Boris Johnson, sem tók við sem forsætisráðherra Bretlands af Theresu May í gær fór strax í að gera viðamikla uppstokkun á ríkisstjórn og stjórn þingflokks Íhaldsflokksins.

Skipti hann út 17 ráðherrum sem flestir höfðu verið, líkt og May, hlynntir áframhaldandi aðild Bretlands í Evrópusambandinu eða stuðningsmenn Hunt, fyrir sannfærða sjálfstæðissinna og eigin stuðningsmenn, enda lítið gerst í útgönguferlinu síðustu rúmu þrjú árin síðan Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa sambandið.

Einn ötulasti talsmaður útgöngunnar og leiðtogi skoðanabræðra sinna í þingflokknum, enski íhaldsþingmaðurinn Jakob Rees-Mogg hefur jafnframt verið gerður að leiðtoga neðri deildar þingsins, þar sem Íhaldsflokkurinn, ásamt sambandssinnum á Norður Írlandi, halda meirihluta.

Hefur Rees-Mogg vakið töluverða athygli fyrir framsögu sína, má nefna nærri milljón áhorf á safnmyndband með hnyttnum tilsvörum hans:

Fleiri konur og ráðherrar með erlendan bakgrunn

Með breytingunum jókst hlutfall kvenna og minnihlutahópa í ríkisstjórninni. Toppembættin komu í hlut þeirra Sajid Javid sem er nýr fjármálaráðherra í stað Philip Hammond sem sagði af sér stuttu áður en tilkynnt var um úrslitin í leiðtogakjörinu í Íhaldsflokknum, Dominic Raab sem er nýr utanríkisráðherra í stað Jeremy Hunt keppinautar Boris Johnson um leiðtogasætið og Priti Patel er nýr innanríkisráðherra í stað Javid.

Þess má þó geta að Javid, sem er af pakistönskum ættum, var stuðningsmaður áframhaldandi veru í ESB, þó hann væri þekktur sem efasemdarmaður um sambandið. Raab var hins vegar harður stuðningsmaður útgöngu, og sama gilti um Patel, sem er af indverskum ættum í gegnum Úganda.

Aðrar áhugaverðar breytingar sem gerðar voru í gær má nefna að einn helsti hugmyndafræðingur og heimspekingur íhaldsmanna í Bretlandi, Roger Scruton, var boðið að taka að nýju við stjórnarformennsku í fegrunarnefnd um arkitektúr í Bretlandi. Í apríl var honum í skyndi ýtt út úr nefndinni eftir birtingu viðtals sem tók mikið af orðum hans úr samhengi.

Gove fær fornt embætti

Ljóst er að fyrrum samstarfsmaður í baráttunni fyrir sjálfstæði Bretlands frá ESB, og síðar keppinautur Boris um forsætisráðherrastólinn, Michael Gove, sem með framboði sínu strax eftir afsögn David Cameroon í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrsögnina er talinn hafa fært May forsætisráðherrastólinn, er kominn aftur í náðina.

Hann er nú svokallaður ráðherra Lancaster hertogadæmisins sem er gamalt embættisheiti sem lifað hefur um aldir í breska ráðuneytinu í ýmis konar sérverkefnum, og mun hans hlutverk vera að búa í haginn fyrir útgönguna. Tók hann við því af David Lidington.

Í heildina tóku 17 nýir ráðherrar við embættum í dag auk fjölda annarra breytinga í breska stjórnkerfinu. Skammur tími er fyrir nýja ríkisstjórn að uppfylla loforð Boris um að gengið verði úr Evrópusambandinu með eða án samnings um áframhaldandi fríverslun og önnur mál 31. október næstkomandi.

Hér má sjá framhaldsmyndband af fyrra myndbandi með yfir 600 þúsund áhorfum með tilsvörum nýs leiðtoga þingsins, Jacob Rees-Mogg: