*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 14. september 2015 13:51

Jakob Valgeir hagnaðist um 330 milljónir

Eigið fé Jakobs Valgeirs var neikvætt um 158 milljónir króna í lok síðasta árs.

Ritstjórn
Guðbjartur Flosason, Jakob Valgeir Flosason, Ásgeir Guðbjartsson og Flosi Valgeir Jakobsson.
Gunnar Hallsson

Útgerðarfélagið Jakob Valgeir ehf. hagnaðist um tæplega 330 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman um 521 milljón króna á milli ára.

Rekstrartekjur félagsins námu 2.614 milljónum króna en kostnaðarverð seldra vara var 1.852 milljónir króna. Rekstrarhagnaður félagsins nam 592 milljónum króna og dróst saman um 131 milljón króna frá fyrra ári.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir Jakobs Valgeirs 7.637 milljónum króna í lok ársins en skuldir voru 7.795 milljónir króna. Var eigið fé fyrirtækisins því neikvætt um 158 milljónir króna í árslok, en það var neikvætt um 488 milljónir króna ári fyrr.

Langtímaskuldir Jakobs Valgeirs námu samtals 6.681 milljón króna og drógust saman um 454 milljónir króna á milli ára. Félagið skuldar 146 milljónir króna í svissneskum frönskum, 5.112 milljónir króna í evrum og 1.853 milljónir króna í breskum pundum.

Stærstu eigendur félagsins eru Flosi Valgeir Jakobsson, faðir Jakobs Valgeirs Flosasonar, með 33% hlut og félagið F84 ehf., sem er í eigu Bjargar Hildar Daðadóttur, eiginkonu Jakobs Valgeirs, með 44% hlut. Jakob Valgeir á persónulega 3,2% í félaginu.