Hagnaður útgerðarfyrirtækisins Jakobs Valgeirs ehf. nam í fyrra 832,4 milljónum króna, samanborið við 329,6 milljóna króna hagnað árið 2014. Rekstrartekjur jukust lítillega og námu tæpum 2,8 milljörðum króna. Framlegð jókst um tæpar 100 milljónir króna og nam 860,5 milljónum króna. Hagnaður fyrir skatta nam í fyrra 1.009,5 milljónum króna, en var 399,1 milljón árið 2014.

Um síðustu áramót voru eignir félagsins 8,9 milljarðar króna og þar af voru fiskveiðiheimildir bókfærðar á 6,2 milljarða króna. Skuldir námu um áramótin 8,2 milljörðum og þar af voru langtímaskuldir við lánastofnanir 6,8 milljarðar. Eigið fé var um áramótin 674,3 milljónir króna, en var ári fyrr neikvætt um 158 milljónir.

Í lok ársins voru hluthafar í félaginu 11 eins og í upphafi árs. Stærstu hluthafarnir eru F84 ehf. með 43,5% hlut og Flosi V. Jakobsson með 35,97%. Stjórn félagsins leggur til að hagnaðurinn verði fluttur til næsta árs.