Útgerðarfélagið Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík er tólfti stærsti hluthafi Íslandsbanka samkvæmt uppfærðum hluthafalista bankans. Félagið fer nú með nærri 20,5 milljónir að nafnverði í Íslandsbanka eða sem nemur 1,02% eignarhlut. Eignarhlutur útgerðarfélagsins í Íslandsbanka er um 2,6 milljarðar króna að markaðsvirði.

Viðskiptablaðið sagði fyrr í ár frá því a ð Jakob Valgeir ehf. hafi átt um 16,2 milljónir hluti í Íslandsbanka í lok janúar. Útgerðarfélagið hefur því eignast um 4,3 milljónir hluti í Íslandsbanka á síðustu tveimur mánuðum en líklegt er að félagið hafi tekið þátt í útboði Bankasýslunnar í síðustu viku.

Jakob Valgeir Flosason er framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins en eiginkona hans, Björg Hildur Daðadóttir, fer með 75% hlut í félaginu samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Jakob Valgeir ehf. er einnig meðal stærstu hluthafa tveggja annarra skráðra félaga í Kauphöllinni. Félagið fer með 10,5% hlut í Iceland Seafood International, sem er um 3,8 milljarðar króna að markaðsvirði, en Jakob Valgeir Flosason situr í stjórn Iceland Seafood. Þá fer Jakob Valgeir ehf. og JV ehf., annað félag á vegum Jakobs Valgeirs, samtals með 1,55% hlut í Skeljungi að markaðsvirði nærri 500 milljónir króna.

RWC aftur á listann

Í gær birtist uppfærður listi á heimasíðu Íslandsbanka yfir hluthafa sem fara með yfir 1% hlut í bankanum í kjölfar útboðsins Bankasýslunnar. Í dag bættist hins vegar við Jakob Valgeir ehf. og sjóðastýringafyrirtækið RWC Asset Management sem var hornsteinsfjárfestir í frumútboði bankans í júní 2021.

RWC á í dag um 25,7 milljónir að nafnverði í Íslandsbanka eða um 1,28% hlut að markaðsvirði um 3,3 millljarða króna. Sjóðastýringafyrirtækinu var úthlutað 1,54% hlut í hlutafjárútboðinu síðasta sumar en minnkaði við sig í kjölfarið við sig. Hlutur félagsins fór undir 1% í nóvember síðastliðnum og datt því út af framangreindum lista.

Sjá einnig: Abú Dabí sjóður hornsteinsfjárfestir

Viðskiptablaðið sagði frá því í haust að meira en helmingur af hlut RWC í Íslandsbanka væri skráður á sjóðinn Al Mehwar Commercial Investments LLC, sem tengist ríkisfjárfestingafélagi í furstadæminu Abú Dabí.