*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 5. ágúst 2016 17:51

Jakob Zuma kennt um ófarir ANC

Forseti Suður Afríku situr undir gagnrýni eigin flokksmanna í Afríska þjóðarráðinu fyrir minnsta fylgi flokksins síðan Apartheid.

Ritstjórn

Forseti Suður Afríku liggur undir aukinni pressu frá flokksmönnum sínum í Afríska þjóðarráðinu (ANC) um að stíga til hliðar.

Kenna margir frammámenn í flokknum, þar á meðal tveir ráðherrar í ríkisstjórninni, honum og hans helstu stuðningsmönnum um verstu kosninganiðurstöður flokksins síðan Apartheid lauk í landinu formlega 1994.

Missa stjórn á þremur helstu borgum landsins

Nú þegar 96% atkvæða hafa verið talin er fylgi ANC einungis 54,4% á landsvísu, en í sveitarstjórnarkosningunum 2011 var það 62%. Þó ekki sé búið að birta niðurstöður kosninganna viðurkenndi flokkurinn ósigur í sveitarfélaginu Nelson Mandela flóa sem inniheldur hafnarborgina Port Elisabeth.

Jafnframt virðist vera sem flokkurinn fái minna en helming atkvæða í Pretoríu, einni af höfuðborgum landsins og Jóhannesarborg, stærstu borg landsins.

Haldinn yrði nýr landsfundur til að skipta um forystu

Þótt Zuma hafi enn mikinn stuðning innan flokksins, þá hafa ráðherrarnir og fimm aðrir meðlimir í framkvæmdastjórn flokksins áhyggjur af því að lélegt fylgi flokksins í sveitarstjórnarkosningum sem voru á þriðjudag, þýði jafnvel enn verra fylgi í þingkosningunum sem verða 2019.

Gagnrýnendurnir óskuðu þó nafnleyndar en þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttastofunnar. Sagði einn gagnrýnendanna að háttsettir fulltrúar í ANC hefðu kallað eftir því að nýr landsfundur yrði haldinn fyrr en í desember á næsta ári til þess að geta kosið nýja forystu í flokknum.

Eyddi ríkisfé í eigin húsnæði

Er Zuma kennt um að hafa kostað flokkinn mikið fylgi í kjölfar hneykslismála og undarlegra ákvarðana. í desember rak hann til að mynda virtann fjármálaráðherra, sem veikti suður-afríska randið þannig að það hefur aldrei veikara verið, en svo sneri hann við blaðinu og réð hann aftur fjórum dögum síðar. Gerði hann það í kjölfar kvartana frá viðskiptalífinu og leiðtogum í flokknum.

Á árinu sagði hæstiréttur landsins hann hafa brotið stjórnarskrána með því að neita að greiða til baka opinbert fé sem notað var til uppbyggingar á einkaheimili hans, meðan annar réttur sagði ákvörðun saksóknara um að hætta að rannsaka ásakanir um spillingu einungis nokkrum vikum áður en hann var kjörinn forseti árið 2009 hafa verið furðulega.

Gjaldmiðillinn, Rand, hrunið síðan tók við

Gjaldmiðill landsins, Randið, hefur lækkað í verðgildi um 40% gagnvart Bandaríkjadal síðan Jakob Zuma tók við stjórn landsins árið 2009.