Bandaríska húsgagnaverslunarkeðjan Pier 1 Imports hefur samþykkt að leyfa Lagernum, fyrirtæki í eigu færeyska kaupsýslumannsins Jákups Jacobsen, að skoða bækur félagsins, segir í frétt Dow Jones.

Greiningaraðilar telja að ákvörðunin geti leitt til þess að Lagerinn geri kauptilboð í bandaríska fyrirtækið.

Lagerinn keypti 9,9% hlut í Pier 1 Imports í febrúar og tók yfir bresku og írsku einingar félagsins í mars fyrir 15 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar rétt rúmlega einum milljarði íslenskra króna.

Söluhagnaður Lagersins af rúmlega 11% hlut í bandarísku heimilsvöruverslunarkeðjunni Linens ?N Things í fyrra er talinn vera í kringum milljarður króna, en fjárfestingasjóðurinn Apollo keypti fyrirtækið eftir að Lagerinn hafði jafnt og þétt aukið við hlut sinn.

Einn greiningaraðili sagðist í samtali við Dow Jones verðmeta Pier 1 á átta dali á hlut, en gengi bréfa Pier 1 hækkaði um 7,9% á fimmtudaginn og endaði í 7,34 dölum á hlut.

Jákup er einn af eigendum JYSK verslunarkeðjunnar í Kanada og talið er að fyrirtækið hafi áhuga á að færa sig suður til Bandaríkjanna. JYSK rekur um 25 verslanir í Kanada. Jákup er einnig einn af eigendum Rúmfatalagersins á Íslandi.

Pier 1 hefur ráðið fjárfestingabankann JP Morgan til að veita ráðgjöf, en sala og tekjur fyrirtækisins hafa verið undir væntingum.