Vangaveltur eru á fjármálamarkaði í New York um það hvort að Jákúp Jacobsen, eigandi Rúmfatalagersins, muni auka við 9,9% eignarhlut sinn bandarísku húsgagnaverslunarkeðjunni Pier 1 Imports, eða jafnvel gera tilraun til þess að taka félagið yfir.

Jákúp sagði erfitt að segja fyrir um hvort að hagkvæmt sé að auka hlutinn að svo stöddu. "Maður veit aldrei. Það fer allt eftir því hvað þetta kostar," sagði Jákúp og neitaði að tjá sig frekar um málið. Jákúp flaggaði 9,9% hlut sínum í Pier 1 í febrúar og í tilkynningu til Securities and Exchange Commission (SEC) segir að hann líti á kaupin sem fjárfestingu en áskilji sér rétt til að hafa samband við stjórnendur Pier 1.

Palli Limited, félag í eigu Jákups, samþykkti í mars að kaupa bresku og írsku einingar Pier 1 fyrir 15 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmlega einum milljarði íslenskra króna. Palli Limited er í eigu Lagersins efh., sem keypti verulegan hlut í bandarísku verslunarkeðjunni Linens ?N Things í fyrra. Fjárfestingasjóðurinn Apollo Management gerði kauptilboð til afskráningar Linens ?N Things í fyrra og talið er að gengishagnaður Lagersins af rúmlega 11% hlut sínum hafi verið í kringum einn milljarður króna.

Rekstur Pier 1 hefur verið undir væntingum greiningaraðila, sem benda þó á að breytingar á vöruúrvali og meiri áhersla á vörulista félagsins og póstverslun séu jákvæðar. Tap var af rekstri Pier 1 á fjórða ársfjórðungi í fyrra og gengi hlutabréfa félagsins hefur verið á bilinu 8,5-18,69 dollarar síðustu 52 vikur. Tapið nam um 10 milljónum dala, samanborið við 18,8 milljóna dala hagnað á sama tímabili árið 2004. Gengi bréfa félagsins hafði lækkað um 1,61% um miðjan dag í gær og var 12,2 dalir á hlut. Lokagengi bréfa Pier 1 daginn áður en Jákúp flaggaði í félaginu var 10,94 dalir á hlut.

Sérfræðingar í New York telja að kauptækifæri séu í félaginu og sala miðað við sama fjölda verslana hafi aukist í síðasta mánuði. "Það lítur út fyrir að nýjar áherslur félagsins hafi haft jákvæð áhrif," segir Colin McGranahan, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtæki Sanford C. Bernstein. McGranahan segist ennfremur búast við söluaukningu á fyrsta og öðrum ársfjórðungi.