Afkoma Íslandsbanka var jákvæð um 3,6 milljarða króna eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt óendurskoðuðum árshlutareikningi. Tekjuskattur er áætlaður 807 milljónir króna. Heildarstærð efnahagsreiknings í lok mars var 699,9 milljarðar króna og heildarútlán námu um 465 milljörðum króna. Eigið fé nam 95,7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall bankans var 20,8%. Þá kemur fram að arðsemi eigin fjár fyrir tímabilið hafi verið 15,3% á ársgrundvelli.

Í tilkynningu frá bankanum segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri, að rekstur bankans hafi gengið vel á ársfjórðungnum og sé í takti við áætlanir. „Það er ljóst að nokkur óvissa ríkir um íslensk lán sem tengd eru erlendum myntum í kjölfar dómsniðurstöðu Hæstaréttar nýverið.   Íslandsbanki er vel í stakk búinn til þess að takast á við þá óvissu enda er bankinn með sterkt eiginfjárhlutfall eða um 20,8% miðað við 16% lágmarksviðmið Fjármálaeftirlitsins“.