Þótt velta á fasteignamarkaði sé enn töluvert undir meðaltali virðist þróunin vera uppávið miðað við nýjustu tölur frá Fasteignamati ríkisins, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?136 kaupsamningum var þinglýst á fasteignamarkaði í síðustu viku sem eru mestu umsvif síðan óvenju daufleg sumarvertíð hófst í júní síðastliðnum," segir greiningardeildin.

Velta á fasteignamarkaði var 40% minni í ágúst mánuði en hún var sama mánuð á árunum 2001-2005.

?Á sama mælikvarða er veltan nú nokkru meiri eða um það bil 30% undir meðaltali. Því virðist sem eftirspurn á fasteignamarkaði sé að einhverju leyti að taka við sér á ný.

Árið 2001 urðu nokkrar íbúðaverðslækkanir á sama tíma og velta á fasteignamarkaði var 20-25% undir meðaltali og virðist því enn vera hætta á lækkunum þótt breyting hafi orðið til batnaðar.

Áhrif veltu virðast koma fram í vísitölu íbúðaverðs með einhverri töf og eiga áhrif dræmrar veltu undanfarna mánuði enn eftir að koma fram. Haldi velta á fasteignamarkaði áfram að aukast gæti hugsanleg lækkunarhrina þó orðið skammvinn líkt og raunin varð í síðustu niðursveiflu," segir greiningardeildin.

Hún segir nýjustu fréttir af Íbúðalánasjóði og verðbólguþróun bendi ef til vill til þess að eftirspurn á íbúðamarkaði eigi eftir að glæðast frekar.