Sjóvá hefur hækkað afkomuspá sína um 300 milljónir króna fyrir rekstrarárið 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Drög að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2021 liggja fyrir, en samkvæmt þeim mun afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta vera um 640 milljónir króna og samsett hlutfall á fjórðungnum um 91,5%.

Þar af leiðandi mun afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta á árinu 2021 vera um 2,5 milljarðar króna í stað 2,2 milljarða króna. Í tilkynningunni segir að betri afkoma á fjórða ársfjórðungi 2021 sé aðallega tilkomin vegna hagstæðari tjónaþróunar en gert var ráð fyrir í horfum á tímabilinu.