Bókun hagnaðar af sölu Sýnar á óvirkum farsímainnviðum verður talsvert hærri en áður hafði verið gert ráð fyrir, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Sýn til Kauphallarinnar. Vinna að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2021 leiddi þetta í ljós.

Reikningsskil Sýnar eru gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Í samræmi við kröfur þeirra staðla er farið með viðskiptin sem sölu og endurleigu á eignum og því mun söluhagnaður ekki vera færður að fullu í gegnum rekstur á söludegi.

Að fyrstu kom fram í tilkynningu frá Sýn til Kauphallarinnar að söluhagnaðurinn myndi miðast við hlutfall milli gangvirðis eigna og núvirðis leiguskuldbindingar. Miðað var við að hlutfall yrði um 80-85% og 15-20% af söluhagnaðinum yrði færður í gegnum reksturinn.

Nú liggur fyrir að 40% af söluhagnaði verði færður gegnum rekstur á söludegi, eða um 2,6 milljarðar króna sem er talsvert umfram fyrra mat.