Hrafn Steinarsson hjá Greiningardeild Arion banka segir að haftafrumvarp fjármálaráðherra hefði jákvæð áhrif á hagkerfið ef yrði að lögum. „Þetta eru varfærin, en tímbær skref,“ segir Hrafn sem segir þau eiga að vera möguleg núna án þess að ógna gengis- eða fjármálastöðugleika.

Betra að taka lítil skref ef upp koma hnökrar

Hrafn fagnar því að losað sé um höftin í skrefum.

„Já, ég held að það sé gott að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar svona aðgerðir eru framkvæmdar er mikilvægt er að gætt sé að trúverðugleika og þá er betra að taka minni skref. Betra er að þau heppnist vel heldur en að taka stærri skref, ef ske kynni að einhverjir hnökrar komi upp við þá framkvæmd. Nú er verið að taka frekar varfærin skerf og allar líkur eru á að þetta hepnist vel og hafi þar af leiðandi jákvæð áhrif á efnahagsumhverfið.“

Þjóðhagsvarúðartæki til að koma í veg fyrir of stríða fjármagnsflutninga

Hrafn segist geta ímyndað sér að enn lengra verði gengið í seinna skrefinu sem taka á um áramótin þegar Seðlabankinn verði búinn að endurmeta stöðuna.

„Staðan verður þá væntanlega sú að fjármagnsflutningar verða frjálsir, en vissulega þarf Seðlabankinn að gæta þess að hafa ákveðinn þjóðhagsvarúðartæki til þess að koma í veg fyrir að fjármagn flæði of hratt inn eða út úr landinu. Til að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga, sem geta ógnað fjármálastöðugleika, hefur Seðlabankinn til dæmis innleitt þessa bindisskyldu, sem dregur úr hvata erlendra fjárfesta til að kaupa íslensk skuldabréf. Er það gert til að reyna að sporna við vaxtamunaviðskiptum,“ segir Hrafn.

Ekki víst að krónan veikist

Aðspurður segir Hrafn að ekki sé víst að krónan muni veikjast í kjölfar frekari rýmkunar gjaldeyrishaftanna, að minnsta kosti myndi hann ekki veðja á að krónan myndi veikjast snarpt þrátt fyrir samþykkt frumvarpsins.

„Miðað við hve miklar gjaldeyristekjurnar eru, sem mikið til eru að falla til vegna ferðamannastraumsins, þá er ekki víst að krónan þurfi endilega að veikjast, þó opnað sé fyrir fjármagnsútflæðið. Við sjáum að Seðlabankann er að taka á móti gjaldeyrisinnflæði sem nemur tugum milljarða á mánuði. Þó er það mögulegt að við sjáum einhverja veikingu krónunnar, en alveg er jafnlíklegt að hún haldist stöðug, eða það hægi á styrkingu krónunnar.“