Þrátt fyrir að vísbendingar hafi komið fram um betri tíð í atvinnulífinu en ýmislegt veldur þó áhyggjum að mati Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Í leiðara nýs fréttabréfs SA bendir hann á að störfum hafi fjölgað um 4.700 frá maí 2011 til jafnlengdar 2012 og að skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun hafi numið 5,6% af mannafla í maí og hefur ekki verið lægra frá því atvinnuleysi náði hámarki eftir bankahrunið.

„Tekjur ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins voru vel yfir áætlun og 16% hærri en á sama tíma í fyrra. Þetta eru allt jákvæðar vísbendingar um betri horfur í efnahags- og atvinnumálum en búist var við.

Áhyggjuefni er að batinn virðist vera neysludrifinn frekar en framleiðsludrifinn. Farsælasta leiðin út úr efnahagserfiðleikunum felst í auknum fjárfestingum í atvinnulífinu og meiri útflutningi. Það leggur grunn að varanlegum lífskjarabata. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur vissulega aukist en hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur hvergi nærri náð því að vera ásættanlegt. Sjávarútvegur og ferðaþjónusta hafa leitt vöxt í útflutningi með góðri loðnuvertíð og fleiri ferðamönnum og útflutningsgreinar ganga almennt mjög vel. Því ættu öll skilyrði að vera til þess að útflutningsfyrirtæki fjárfesti mun meira en raun ber vitni.

Hagvöxtur knúinn af einkaneyslu leiðir okkur á gamalkunnar slóðir ef aukinn útflutningur og aukin fjárfesting í útflutningsgreinunum helst ekki í hendur við aukna neyslu. Af þeim 4,5% hagvexti sem mældist á 1. fjórðungi ársins verður einungis 0,8% rakið til aukinna utanríkisviðskipta og framlag fjárfestingar nam 1,2% af vextinum,“ segir í leiðaranum.