Á árinu 2014 varð 195 milljón króna rekstrarafgangur hjá Grindavíkurbæ. Bæjarstjórn Grindavíkur telur þetta sérstaklega jákvæðan árangur í ljósi þess hve lág útsvarsprósenta Grindavíkur er sem og fasteignagjöld, en útsvar í Grindavík er 13,99% meðan landsmeðaltal er 14,52%.

Á dögunum undirritaða bæjarstjórn Grindavíkurbæjar ársreikning bæjarins eftir aðra umræðu. Fram kemur í tilkynningu að rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 400,7 milljónum króna í veltufé frá rekstri sem er 16,5% af heildartekjum. Á árinu námu fjárfestingar 803,6 milljónum króna. Helstu liðir eru framkvæmdir við nýtt bókasafn og tónlistarskóla og viðbyggingu við íþróttamiðstöð.  Á árinu voru engin ný lán tekin og voru framkvæmdirnar fjármagnaðar með veltufé og um 289,6 milljónum af handbæru fé. Eignastaða Grindavíkurbæjar er þó góð, en handbært fé í árslok 2014 var 1.297,4 milljónir króna.

Heildareignir Grindavíkurbæjar eru 8.174,9 milljónir króna. Heildarskuldir og skuldbindingar eru 1.517,6 milljón króna. Lífeyrisskuldbinding er um 483,6 milljón króna og þar af er áætluð næsta árs greiðsla 19,7 milljónir króna. Langtímaskuldir eru 743,1 milljón króna og þar af eru næsta árs afborganir 26,9 milljónir króna.

Eigið fé í samanteknum reikningsskilum er 6.657,3 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 81,4%, sem er með því hæsta á landinu.

Ársreikninginn má nálgast á vef Grindavíkurbæjar - www.grindavik.is/arsreikningar