*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 17. janúar 2020 08:19

Jákvæð teikn hjá Analytica

Leiðandi hagvísir fyrir framleiðslu eftir hálft ár stendur í stað annan mánuðinn í röð eftir margra mánaða lækkanir.

Ritstjórn
Yngvi Harðarson er framkvæmdastjóri og stofnandi greiningarfyrirtækisins Analytica.
Haraldur Guðjónsson

Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) er óbreyttur í desember, annan mánuðinn í röð. Þetta eru jákvæð teikn eftir miklar og stöðugar lækkanir síðastliðin misseri.

Enn er þó of snemmt að segja til um hvort botni hagvísisins sé náð og talsverðar líkur á stöðnun eða samdrætti í efnahagsmálum fyrstu mánuði ársins að mati Yngva Harðarssonar framkvæmdastjóra Analytica.

Þrír af sex undirliðum hækka frá í nóvember en mest framlag til hækkunar hefur þróun aflamagns. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Notaðir til spágerðar víða um heim

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum og er hann eins og áður segir samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í desember lækka fimm af sex undirþáttum frá fyrra ári.

Vísitölur leiðandi hagvísa hafa verið reiknaðar fyrir flest helstu iðnríki um áratugaskeið í þeim tilgangi að veita tímanlega vísbendingu um framleiðsluþróun.

Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga. Hér má sjá nánar um hagvísinn.