Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í nýliðnum nóvembermánuði. Um er að ræða fyrstu hækkun í rúmlega tvö ár, ef hækkunin sem átti sér stað í júlí er undanskilin sem síðar sætti endurskoðun. Frá þessu er greint á vef Analytica.

Þar kemur fram að ef miðað er við að hagvísirinn hafi forspárgildi um vendipunkta um sex til níu mánuði virðist nú möguleiki á viðsnúningi í átt að efnahagsbata á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Þrír af sex undirliðum hafa tekið að hækka frá því í október.

„Stærsta framlag til hækkunar er vegna hækkunar væntingavísitölu Gallup og vísitölu aflamagns. Langtímauppleitni mikilvægra undirþátta hefur verið sterk en í bráð hefur langtímaleitnin minna að segja. Ennþá er sérstök óvissa tengd ferðaþjónustu og mögulegum tímasetningum bólusetninga vegna COVID-19 farsóttarinnar.“

Hlutverk téðrar vísitölur er að gefa vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Hún á að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.