Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði áfram í október. Einnig bendir hagvísirinn til þess að hagvöxtur aukist á ný í byrjun næsta árs, þótt gera megi ráð fyrir minni hagvexti á seinni árshelmingi þessa árs.

Fleiri undirþættir hagvísisins hækka í október en fyrir mánuði síðan. Þannig er aukning bæði í debetkortaveltu innlendra aðila og innflutningi, auk þess sem fiskafli heldur áfram að aukast.

Að teknu tilliti til árstíðasveiflu breytist væntingavísitalan lítið í október. Hún hækkar hins vegar frá fyrra ári sem má aðallega rekja til þróunar hennar fyrstu þrjá mánuði ársins. Einnig fjölgar hratt komum ferðamanna til landsins en þó virðist ólíklegt að hlutfallsleg aukning á síðasta fjórðungi ársins verði ámóta og fyrir ári síðan.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Hann er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Er þar um að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í október hækkuðu fimm undirþættir af sex frá fyrra ári.