Nýjum störfum fjölgaði mun meira í Bandaríkjunum en búist var við í september en alls urðu 103 þúsund störf til í mánuðinum, utan landbúnaðargeirans, og höfðu sérfræðingar spáð 59 þúsund nýjum störfum. Þetta þykja vitaskuld góðar fréttir og hækkuðu allar helstu hlutabréfavísitölur Evrópu þegar þær bárust en eins og fram kom á vb.is í morgun beið markaðurinn eftir fréttum af stöðu vinnumarkaðarins vestra. Þá benda framvirk viðskipti í Bandaríkjunum til þess að tíðindin hafi glatt markaðinn.

Þá voru tölur um fjölgun starfa í ágúst mánuði endurskoðaðar að sögn Bloomberg og urðu 57 þúsund ný störf til í ágúst sem er meira en búist hafði verið við.

Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er þó óbreytt, 9,1%, á milli mánaða.