Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur gefið það út að horfur fyrir lánshæfi írska ríkisins séu nú jákvæðar, en þær voru flokkaðar sem stöðugar fyrir breytinguna. Í frétt BBC segir að ástæðan sé einkum sú að skuldir írska ríkisins séu að lækka hraðar en búist hafði verið við.

Fyrir bankahrunið 2008 var lánshæfiseinkunn írska ríkisins AAA en er nú BBB+. S&P segir að þriðjungslíkur séu á því að lánshæfiseinkunn írska ríkisins verði hækkuð á næstu tveimur árum.

Matsfyrirtækið spáir því að hlutfall skulda og vergrar landsframleiðslu, sem nú er 122%, verði komið í 112% árið 2016.