Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gaf á dögunum út skýrsluna „Government at a Glance“, þar sem litið er á stöðu ríkisins innan aðildarríkja OECD, bæði hvað varðar fjárhag ríkisins, viðhorf almennings til ríkisstofnana og samsetningu vinnustaða á vegum ríkisins.

Sérfræðingar OECD benda á að í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar árið 2008 hafi mörg ríki staðið frammi fyrir því erfiða verkefni að endurskipuleggja ríkisfjármálin. Samhliða því hafi dregið úr trausti almennings í garð ríkisins þar sem yfirstjórnir hafi átt í erfiðleikum með að bregðast við væntingum almennings um viðbrögð við hinum ýmsu efnahagserfiðleikum sökum slæmrar fjárhagsstöðu ríkisins. Er Ísland þar ekki undanskilið en árið 2012 var landið mjög neðarlega á lista OECD þar sem vikið var að trausti almennings til þjóðþingsins. Íslendingar virtust þó talsvert jákvæðari í garð þingsins í maí á þessu ári, stuttu eftir Alþingiskosningarnar.

Í skýrslu OECD kemur meðal annars fram að milli áranna 2007 og 2012 hafi hlutfall einstaklinga sem treysta ríkisstjórn lands síns til að sinna hlutverki sínu, fallið úr 45% í 40% að meðaltali. Að mati OECD hefur þetta orðið til þess að ríkisstofnunum reynist nú enn erfiðara á ári hverju að safna stuðningi meðal landsmanna á bak við nauðsynlegar tillögur um umbætur á starfsemi ríkisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .