„Það má kannski segja að það sé kalt á toppnum og þegar vel gengur eykst gagnrýnin,“ segir Heiðrún kímin spurð hvort gagnrýni á kerfið í kringum íslenskan sjávarútveg sé að hennar mati full óvægin á köflum, í ljósi þess að fáar ef nokkrar aðrar þjóðir ná að búa til meiri verðmæti úr fisknum í sjónum heldur en Ísland.

„Ég tel að sjávarútvegur eigi ekki að taka gagnrýninni neitt sérstaklega persónulega. Því ber að fagna að vel gangi því á meðan svo er verða meiri verðmæti til skiptanna. Það er fyrst og fremst hávær minnihluti sem fær fólk til að halda að þjóðin sé almennt neikvæð í garð sjávarútvegsins. Það er aftur á móti ekki reyndin.

Samkvæmt könnunum sem við höfum reglulega látið framkvæma fyrir okkur, þá er myndin gróflega sú, að rúmlega helmingur aðspurðra er jákvæður gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Ríflega fjórðungur er svo hlutlaus og undir fjórðungur aðspurðra er neikvæður í garð sjávarútvegs. Þrátt fyrir alla okkar vinnu hjá SFS, sem einhverjir telja mjög öflug hagsmunasamtök, þá hefur þessi mynd verið mjög svipuð allt frá árinu 1983,“ segir hún og hlær.

„Þetta ræðst vafalaust einnig af pólitískum skoðunum fólks og þá helst um það hvort stjórnvöld eigi að hafa puttana í atvinnurekstri eða hvort treysta eigi einstaklingunum til að skapa verðmætin. Þarna takast á þessi klassísku hægri og vinstri pólitísku sjónarmið og það má kannski segja að atvinnugreinin sé eins konar fórnarlamb þess. Fyrirtækin eða SFS bjuggu ekki til leikreglurnar. Stjórnvöld settu umgjörðina og bera á henni fulla ábyrgð“ bætir hún við.

Hún leggur áherslu á að atvinnugreinin sé ekki mótfallin breytingum á kerfinu. Þær þurfi þó að leiða til þess að íslenskur sjávarútvegur standi betur en áður.

„Það hlýtur að vera sanngjörn krafa að stjórnmálin leggi mat á það fyrirfram hver áhrif einstakra breyting geti orðið. Mér finnst oft skorta að slíkt mat sé unnið. Það er ekki allt fengið með breytingunni. Stundum valda breytingar tjóni og við það verður allra tap.

Í því samhengi má nefna hugmyndir um aukna gjaldtöku, frekari takmarkanir á hve stór fyrirtæki geta orðið og þar fram eftir götunum. Áhrifin geta orðið mjög mikil og víðtæk við það að ráðast í uppstokkun á kerfi sem er orðið tiltölulega rótgróið og hefur sannað gildi sitt. Atvinnugreinin gerir þá einu kröfu að þessi áhrif séu metin áður en ráðist er í breytingar, þannig að allir geti tekið upplýsta ákvörðun um ágæti hlutaðeigandi breytinga.“

Orkuskiptin ein helsta áskorunin

Annað mál sem mikið er til umræðu í íslensku atvinnulífi og samfélaginu öllu eru umhverfismálin. Fyrirtæki og einstaklingar leggja ýmislegt á sig til að draga úr kolefnisspori sínu og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til kolefnishlutleysis árið 2040. Heiðrún segir orkuskiptin eina helstu áskorun sem sjávarútvegur standi frammi fyrir næstu tíu til tuttugu árin.

„Hingað til hefur gengið vel að draga úr kolefnisspori fiskiskipaflotans og sjávarútvegsins í heild. Fyrirtækin hafa ráðist í miklar fjárfestingar til að komast á þann stað sem þau eru á í dag. Það hefur tekist vel til að nýta orkuna betur, án þess að það hafi bitnað á veiðunum. Ef litið er aftur til ársins 2005, þá er samdráttur í olíunotkun 37%. Þessari vegferð er þó hvergi nærri lokið, en við verðum líka að gæta þess að vera raunsæ. Enn sem komið er tækni ekki til staðar sem gerir sjávarútvegi kleift að fara í full orkuskipti. Fyrirtækin þurfa hins vegar að vera á tánum og vera tilbúin þegar tæknin kemur.

Miðað við þá framsýni sem íslenskur sjávarútvegur hefur sýnt til þessa, þá veit ég að hann verður fyrirmynd annarra í þessum efnum. En á meðan beðið er nýrrar tækni, er líka margt sem hægt er að gera til að draga enn frekar úr olíunotkun. Það þarf til að mynda að auka aðgang að rafmagni fyrir fiskimjölsverksmiðjur og bæta raftengingar skipa í höfn, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna þurfa stjórnvöld að hlaupa hraðar.“

Íslenskur sjávarútvegur hafi í gegnum tíðina verið fljótur að tileinka sér nýja tækni og aukna sjálfvirknivæðingu.

„Kostur þess að starfa í litlu samfélagi er að samvinna milli hugvitsdrifins iðnaðar og sjávarútvegs verður svo náin. Boðleiðir eru svo stuttar. Sjávarútvegsfélögin búa yfir mikilli þekkingu og eru ófeimin við að deila henni með hugvitsdrifnu iðnfyrirtækjunum. Þessi mikilvæga samvinna hefur ekki aðeins aukið verðmætasköpun í sjávarútvegi, heldur hefur með henni tekist að búa til nýja stoð útflutnings í formi sjávarútvegtengdrar tækni.“

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu SFS: Auður hafsins - lífskjör framtíðar, sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild hér.