Alls hafa sex af tuttugu félögum Kauphallarinnar sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun vegna fjórða ársfjórðungs 2021, þar af komu fjórar í þessari viku. Eftir lokun Kauphallarinnar í dag sendi Eimskip frá sér sína aðra jákvæðu afkomuviðvörun vegna síðasta fjórðungs.

Þá sendi Kvika frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi um að hagnaður samstæðunnar fyrir skatta á síðasta ári yrði um 0,2-0,7 milljörðum króna betri en í fyrri afkomuspá. Fyrr um daginn hafði Sýn tilkynnt að bókfærður hagnaður af sölu óvirkra farsímainnviða verði „talsvert hærri en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Á mánudaginn tilkynnti Sjóvá að afkoma af vátryggingastarfsemi á síðasta ári yrði um 10% hærri en áður var gert ráð fyrir. Fyrir viku síðan greindi Íslandsbanki frá því að hagnaður bankans eftir skatta á fjórða ársfjórðungi yrði um 7,1 milljarður en sjö greiningaraðilar höfðu að meðaltali spáð því að afkoman yrði um 5 milljarðar. Þar áður hafði Síldarvinnslan tilkynnt að EBITDA hagnaður félagsins fyrir árið 2021 yrði meira en einum milljarði króna umfram áætlanir.

„Það er góður gangur hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni," segir Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital. Dæmi séu um fleiri slíkad tilkynningarnar en að það gæti þó enn verið von á fleiri tilkynningum fyrir síðasta fjórðung þar sem uppgjörum sé ekki lokið. Almennt hafi rekstur fyrirtækja í Kauphöllinni gengið vel að undanförnu sem sást á uppgjörum þriðja ársfjórðungs.