Repúblikanar í fulltrúadeild bandaríkjaþings hittu í gær Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til að ræða skuldakreppu Bandaríkjanna og mögulega hækkun á skuldaþakinu. Fundurinn stóð yfir í níutíu mínútur og samkvæmt frásögn BBC telja bæði forsetinn og þingmennirnir að hann hafi verið gagnlegur.

Repúblikanar hafa boðið forsetanum að styðja skammtíma hækkun skuldaþaksins til að fresta greiðsluþroti ríkissjóðs. Ný skoðanakönnun sýnir að meirihluti Bandaríkjamanna kennir repúblikönum um að starfsemi bandaríska ríkisins hefur lagst niður að mestu undanfarið. Repúblikanar leggjast gegn því að hækka skuldaþakið nema til komi verulegur niðurskurður á fjárlögum.

IFS greining segir frá því í dag að aukinnar bjartsýni gæti í Bandaríkjunum. Hlutabréf hækkuðu í gær og hafa þau ekki hækkað meira í níu mánuði.