Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og sveitastjórnar- og samgöngumálaráðherra segist vel geta hugsað sér nýtt hærra þrep fyrirtækjaskatts. Þrepið yrði lagt á stærri fyrirtæki sem „búa við þær aðstæður að þeirra hagnaður er meiri en flestra annarra“.

Ummælin lét hann falla í Sprengisandi í morgun í umræðum um samþjöppun og hagnað sjávarútvegsins, en Sigurður Ingi ítrekaði að hann ætti við öll fyrirtæki yfir tilteknum mörkum, ekki aðeins íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, og vísaði sérstaklega til erlendra tæknirisa í því samhengi.

Hann benti á að nú sé unnið að lagningu þriðja gagnastrengsins til landsins, sem verði gert með þeim hætti að ríkið eigi innviðina. „Þannig að samkeppnin hefst við endastöðina, og við erum að fara að ýta undir samkeppni hér innanlands, en ekki takmarka hana með því að einhverjir eigi leiðirnar inn og út úr landinu.“

Þetta geti hinsvegar orðið til þess að skapa möguleika fyrir gagnaver og „allan þann geira sem byggir á því“, sem geti laðað að alþjóðleg fyrirtæki. „Þá skiptir máli að skattaumhverfið á Íslandi sé í einhverju samfloti við það sem er að gerast alþjóðlega. Þessvegna finnst mér þetta vera gríðarlega jákvæðir hlutir sem eru að gerast í Bandaríkjunum, vegna þess að á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um misskiptingu; ríkasta 1% heimsins sé að verða sífellt ríkari á kostnað millistéttarinnar.“

Hann benti þó á að launajöfnuður væri mestur hér á landi meðal allra samanburðarlanda, „og langt umfram það sem menn halda, og miðað við umræðuna á Íslandi skyldi maður ætla að hann væri það ekki.“

Ummæli Sigurðar Inga í heild:

„Mér finnst spennandi þeir hlutir sem [bandaríkjaforseti] er að leggja áherslu á í sinni skattapólitík, að fara að tala um að stærri fyrirtækin – og hér er ég ekki bara að tala um sjávarútveg, ég er bara að tala um fyrirtæki sem búa við þær aðstæður að þeirra hagnaður er meiri en flestra annarra – greiði meira til samfélagsins þar í gegn. Má hugsa sér hugsanlega þrepaskipt tekjuskattskerfi fyrirtækja? Það er eitthvað sem mér fyndist koma til greina. Þannig að við séum ekki að hamla því að þessi öflugu fyrirtæki byggi upp og noti fjármuni í nýsköpun, af því að það er drifkraftur þess að búa til fleiri störf og peninga sem við lifum af, að selja útflutninginn okkar, en á móti gæti það jafnað leikinn hér innanlands, og ég tala nú ekki um ef þetta verður alþjóðleg bylgja sem Bandaríkjastjórn er að fara að koma af stað.“