Samkvæmt bráðabirgðayfirliti Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlönd fyrir fyrsta ársfjórðung ársins mældist hann hagstæður um 2,1 milljarð króna. En það er minnkun frá fjórðunginum á undan þar sem hann var 7,8 milljarðar.

Jafnframt metur Seðlabankinn svo að hrein eignastaða þjóðarbúsins sé nú neikvæð um 131 milljarð króna eða sem nemi 5,9% af vergri landsframleiðslu.

Þjónustan vegur upp vöruinnflutning

Heildarviðskiptajöfnuðurinn var jákvæður eins og áður segir en vöruskiptajöfnuðurinn var óhagstæður um sem nam 25,6 milljörðum króna en það er vegið upp af þjónustujöfnuðinum sem var hagstæður um 26,9 milljarða.

Jafnframt var jöfnuður frumþáttatekna hagstæður um 5,4 milljarða króna en rekstrarframlögin voru óhagstæð um 4,5 milljarða. Kemur þar inní að áhrif innlánastofnana í slitameðferð á frumþáttatekjurnar voru hverfandi eftir samþykki nauðasamninga í desember síðastliðnum.

Erum í skuld við umheiminn

Þar sem erlendar skuldir þjóðarbúsins voru 4.347 milljarðar króna en erlendar eignir þess 4.215 milljarðar var því eins og áður segir heildarstaðan neikvæð um 131 milljarð. Hækkuðu nettóskuldir um 4 milljarða króna eða sem nemur 0,2% af vergri landsframleiðslu milli ársfjórðunganna.

Áhrif greiðslna til þrotabúa

Á þessum ársfjórðungi greiddu innlánastofnanir í slitameðferð reiðufé til kröfuhafa sinna auk þess sem þeim voru afhent skulda- og hlutabréf í félögunum. Nam skuld þeirra 598 milljörðum króna í lok fjórðungsins sem verður greidd eftir því sem sölu eigna vindur fram.

Jafnframt var verðmat á skuldum félaganna endurskoðað frá síðustu birtingu og eru þær nú á markaðsvirði en ekki nafnverði eins og áður, til að endurspegla betur þá fjárhæð sem kröfuhafarnir fá greiddar. Áhrifin af þessu er betri erlend staða þjóðarbúsins í lok ársins 2015 sem nemur 172 milljörðum króna eða 8,8% af árlegri landsframleiðslu.