Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial, segir félagið standa á tímamótum og væntir þess að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) muni vera jákvæður fyrir lok næsta árs. Veltan á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi aukist um 88% á milli ára, samkvæmt Nilson data, og horfurnar því bjartar hjá félaginu.

Jón segir lykilþátt í vextinum vera þá staðreynd að fólk kaupi vatnið oftar en einu sinni. „82% af fólki sem kaupir vatnið okkar á Amazon kaupir það aftur.“ Hann bendir á að í verslunum Sprouts í Los Angeles hafi Icelandic Glacial verið mest selda innflutta eðalvatnið og að félagið hafi jafnframt aukið vöxt eðalvatns í verslunum Sprouts. Þannig hafi flest önnur vörumerki á sama markaði verið tekin úr sölu hjá Sprouts. „Þau tóku vörumerki eins og Fiji og Evian sem eru stærri en við úr hillunum. Einu innfluttu vörumerkin sem þau selja erum við og Acqua Panna.“

Áætlaður vöxtur félagsins milli áranna 2022 og 2023 mun nema 60% að sögn Reza. „Við leggjum áherslu á að vaxa en einnig að ná fram arðsemi. Alltof mörg vörumerki í Bandaríkjunum hugsa bara um vöxtinn en gleyma arðseminni.“

Hann bætir við að markmið félagsins sé að verða númer eitt á sínum markaði. „Við erum stærsta íslenska vörumerkið í Bandaríkjunum og erum þriðja stærsta innflutta eðalvatnið á Bandaríkjamarkaði. Við trúum á að við getum farið úr þriðja sæti í fyrsta sæti.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.