Alls hækkuðu hlutabréf þrettán félaga sem skráð eru í kauphöll Íslands í viðskiptum dagsins. Átta félög hækkuðu um meira en eitt prósentustig. Heildarvelta var töluvert meiri en hefur verið undanfarna daga eða 2,3 milljarðar króna í 155 viðskiptum.

Mest hækkuðu hlutabréf Símans um 3,27% í mestri veltu sem nam 587 milljónum króna. Við lokun markaða hafa bréf Símans aldrei verið hærri og var markaðsvirði félagsins tæplega 60 milljarðar króna. Næst mest hækkuðu bréf Regins um 1,88% og þriðja mest hækkun var á bréfum Festi um 1,79%.

Úrvalsvísitalan (OMXI10) hækkaði um 0,15% og stendur í tæplega 2.100 punktum. Hlutabréf Marel lækkuðu um 0,58% sem skýrir að miklu leiti minni hækkun OMXI10 en ella þar sem markaðsvirði Marel er yfir helmingur af markaðsvirði vísitölunnar. Bréf Marel standa nú í 681 krónu en í júlí síðastliðnum náðu bréf félagsins hæstu hæðum þar sem hvert bréf var virði 746 krónur.

Mest lækkuðu hlutabréf Icelandair um 1,71% í níu milljóna króna viðskiptum. Bréf félagsins standa í 1,15 krónu hvert en í hlutafjárútboði Icelandair seldist hver hlutur á eina krónu.