Ríkið seldi 35% hlut í Íslandsbanka síðasta sumar þegar bankinn var skráður á markað. Ríkisstjórnin hyggist selja eftirstandandi 65% hlut sinn í bankanum á næstu tveimur árum ef markaðsaðstæður verði ákjósanlegar. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er spurður út í þessar fyrirætlanir í viðtali, sem birtist við hann í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

„Það er ekki eðlilegt ástand að ríki eigi meirihluta fjármálakerfisins og slík staða er vandfundin í Evrópu í dag enda er alltaf hætta á því að það skekki samkeppnina og leiði til óskilvirkni,“ segir Benedikt. „Hið eðlilega form er að fjármálafyrirtæki séu skráð á markað og séu í dreifðri eignaraðild. Vissulega var talað um þetta síðast þegar bankarnir voru seldir en það hefur ýmislegt breyst síðan. Meðal annars er áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi orðin meiri. Lífeyrissjóðakerfið hefur stækkað og fjármunaeign Íslendinga hefur aukist. Síðan hefur regluverkið í kringum bankana breyst svo mikið að það er ekki eftirsóknarvert fyrir fyrirtækjasamsteypu eða efnamikla einstaklinga að eiga stóran hlut í fjármálafyrirtæki því það er þeim bara til trafala í viðskiptum.

Núverandi umhverfi er þannig að það tryggir dreifða eignaraðild alveg eins og á Norðurlöndunum þar sem allir stærstu bankarnir eru skráðir á hlutabréfamarkað og eru í dreifðri eigu. Ég held að skrefið með Íslandsbanka sé mjög jákvætt.

Ef það kæmi síðan seinna á kjörtímabilinu yfirlýsing um það að hefja ætti undirbúning að skráningu Landsbankans þá yrði það einnig mjög jákvætt. Við vitum reyndar að ríkið mun alltaf eiga lykilhlut í Landsbankanum, sem er svipuð nálgun og Norðmenn hafa farið. Mér finnst þetta skynsamleg nálgun í landi sem er með sjálfstæðan gjaldmiðil. Ef þú vilt tryggja sjálfstæði myntarinnar þá verðurðu um leið að tryggja að höfuðstöðvar stærsta bankans séu í þínu landi. Ef Íslandsbanki fer að fullu í dreifða eignaraðild og Landsbankinn að stórum hluta þá er að mínu viti búið að staðsetja Ísland tryggilega sem fjármálaþjónustumiðstöð fyrir norðurslóðir.“

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Benedikt Gíslason í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .