Hafnarskilyrði í Helguvík eru mjög ákjósanleg og forsenda fyrir uppbyggingu álvers á svæðinu. Unnt er að byggja 250 þúsund tonna álver á núverandi iðnaðarsvæði í Helguvík í landi Reykjanesbæjar þannig að öllum umhverfisskilyrðum sé fullnægt. Með því að teygja byggingarsvæðið aðeins til norðurs frá skipulögðu iðnaðarsvæði eru stækkunarmöguleikar enn meiri. Fyrstu athuganir á flutningsleiðum fyrir raforku gefa jákvæð fyrirheit.

Þetta eru niðurstöður verkfræðistofunnar Hönnunar hf. sem nú hafa verið kynntar forsvarsmönnum Norðuráls, Hitaveitu Suðurnesja og Reykjanesbæjar.

Fulltrúar Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja undirrituðu í maí sl. samkomulag um að kanna möguleika á rekstri álvers í Helguvík í landi Reykjanesbæjar. Í framhaldi af undirritun samkomulagsins var strax hafist handa við frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum og aðstöðu fyrir álver þar. Niðurstöður þessarar könnunar liggja nú fyrir eins og kemurfram hér að framan.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að skoða aðstæður Helguvíkurhafnar, iðnaðarlands til byggingar og umhverfisáhrif álvers miðað við mismunandi staðsetningar. Skýrslan staðfestir kjöraðstæður í Helguvík en áhersla hefur verið lögð á að uppbygging álvers trufli ekki núverandi íbúabyggð og setji ekki þróun þess skorður í framtíðinni. Með það fyrir augum er staðsetning álversins skipulögð nyrst á skipulögðu iðnaðarsvæði í Helguvík í Reykjanesbæ. Fyrstu rannsóknir benda til þess að þannig standist staðsetning allar umhverfiskröfur en þær eru sem kunnugt er mjög strangar gagnvart staðsetningu álvera.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að um sé að ræða sérlega áhugavert sóknarfæri fyrir Reykjanesbæ og nágrannabyggðir sem stuðlað geti að mun fleiri og fjölþættari vel launuðum störfum. ?Niðurstöður könnunarinnar eru auðvitað fagnaðarefni og mikil hvatning til að ganga rösklega fram í undirbúningi að þessu stórverkefni, en ég ítreka að við erum rétt að taka fyrstu sporin á langri leið. Þetta verkefni yrði gríðarlegur styrkur fyrir byggðararlögin hér og sama skapi mun stór hluti þeirrar umhverfisvænu orku sem hér verður til nýtast svæðinu beint. Áhersla okkar á Helguvíkursvæðið mun greinilega skila sér margfalt til baka í komandi framtíð," segir Árni í tilkynningu sem send var út á vegum Norðuráls.

Orkulögn í sjó

Fyrstu athuganir á möguleikum til orkuflutnings til fyrirhugaðs álvers inn á iðnaðarsvæðið í Helguvík benda ekki til vandkvæða við það en lögn í sjó er talinn líklegur kostur síðasta spölinn frá Fitjum að Helguvík. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir að hlutverk Hitaveitunnar sé að tryggja næga orkuöflun fyrir verkefnið og leita samstarfs við Landsnet um flutning raforkunnar. ?Við lítum á þetta verkefni sem spennandi tækifæri sem eflt geti atvinnulífið og stækkað markað fyrirtækisins með arðbærum hætti og vinnum nú að því að afla leyfa fyrir Hitaveituna til frekari rannsókna á orkuöflunarsvæðum," segir Júlíus í sömu tilkynningu.

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnunarsviðs Norðuráls, segir að niðurstöður könnunarinnar séu ánægjulegur áfangi en aðeins einn af mörgum, eigi nýtt álver að verða að veruleika. ?Við höfum lagt áherslu á að starfa í sem bestri sátt við íslenskt samfélag og gætt þess að taka hóflega stór skref í einu. Við höfum sett nýtingu íslensks vinnuafls á oddinn og átt mikil og ánægjuleg samskipti við íslensk orkufyrirtæki, verkfræðifyrirtæki, verktaka, banka og flutningafyrirtæki, svo að eitthvað sé nefnt, og munum fylgja þeirri stefnu áfram." Ragnar segir að gangi öll áform eftir og öllum skilyrðum verði fullnægt sé gert ráð fyrir að álframleiðsla gæti hafist Helguvík á tímabilinu frá 2010 til 2015.