Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum er að rétta úr kútnum og skilar 28,4 milljónum danskra króna í hagnað á fyrsta ársfjórðungi 2010 fyrir skatt og 20, 5 milljónum eftir skatt. Er þetta mikill viðsnúningur því 15,4 milljóna dkr. tap var á félaginu á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningu frá félaginu segir m.a. að sölutekjur á fyrsta ársfjórðungi 2010 hafi numið 76,9 milljónum dkr. og skilaði það EBIT hagnaði upp á 22,3 milljónir dkr.

Hefur þessi bætta staða leitt til þess að félagið hefur getað greitt niður skuldir á fyrsta ársfjórðungi upp á 25 milljónir dkr. og í heild á árinu 2010 upp á 46,7 milljónir dkr.

Nýliðinn aprílmánuður var besti framleiðslumánuður fyrirtækisins frá því fyrirtækið hóf olíuframleiðslu 2008.  Fengust 89.000 tunnur úr Chestnut og Ettrick olíulindunum í apríl að því er fram kom í tilkynningu til Nasdaq OMX fyrir skömmu.