Breska tískuvöruverslunarkeðjan Jane Norman, sem er að mestu leyti í eigu Baugs, hefur opnað búð í Danmörku, segir í frétt breska fagtímaritsins The Drapers Record. Þar segir að fyrirtækið hafi notfært sér tengslin við Baug til að opna verslun í stórvöruversluninni Illum, sem er einnig að mestu leyti í eigu Baugs.

Forstjóri Jane Norman, Saj Shah, sagði í samtali við The Drapers Record að búðin í Kaupmannahöfn væri sú fyrsta af mörgum utan Bretlands og að fyrirtækið myndi opna 8-10 búðir erlendis á næstu tveimur árum.

Hann sagði standa til að opna búð í Reykjavík á næstu tveimur mánuðum og að fyrirtækið væri einnig að skoða möguleika í Svíþjóð og Þýskalandi. Baugur leiddi yfirtöku á Jane Norman í fyrra fyrir 117 milljónir punda, sem samsvarar 15,5 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Shah sagði sambandið við Baug hafa hjálpað fyrirtækinu að verða alþjóðlegt fyrirtæki. "Tengslin við Baug hafa hjálpað okkur. Þeir (Baugur) eru með stórt alþjóðlegt tengslanet, sem hefur verið mikill kostur." Hann sagði að velta hefði verið góð síðan búðin í Illum var opnuð. "Kaupmannahöfn er bara lítill bær, en hann er mjög vel með á nótunum í tísku og þar er svo sannarlega að finna viðskiptavini Jane Norman," sagði Shah.