Þjáningar fasteignamarkaðarins í Litháen halda áfram. Meðalverð íbúða í fimm stærstu borgum landsins féll um 20% frá mars 2009 til mars 2010. Það á bæði við hvað varðar nafnvirði og raunvirði fasteigna að því er fram kemur í tölum fasteignaráðgjafafyrirtækisins Ober Haus.

Þrátt fyrir það virtist vera að draga úr fasteignaverðslækkunum í mars, var það 28. mánuðurinn í röð sem verðið hefur fallið á markaðnum síðan hann var í hámarki í desember 2007. Hefur verðið fallið um 40% að nafnvirði frá því það stóð sem hæst og 46% að raunvirði. Samt er þetta ekki mesta verðfall sem sést hefur því staðan er verri í mörgum öðrum löndum að mati sérfræðinga Ober Haus.

Búist er við að verðfallið haldist enn í tveggja stafa tölu út þetta ár vegna efnahagsástandsins í landinu að því er fram kemur í frétt Global Preoperty Guide. Yfirvöld hafa þó sett af stað ýmsar áætlanir til að draga úr yfirbyggingu ríkisins eins og lækkun launa í opinbera geiranum um 20-30% og eftirlauna um 11%. Eftir 15% samdrátt í efnahagskerfi landsins á árinu 2009 er búist við 3-4% samdrætti á þessu ári. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist úr 13,7% 2009  í 16,6% í árslok 2010. Einnig er gert ráð fyrir að raunvirði launa lækki um 6% á árinu 2010 og um 9% á árinu 2011.