Viktor Janúkóvitsj, sem um síðustu helgi var steypt af stóli sem forseti Úkraínu, virðist hafa lifað í vellystingum í stjórnartíð sinni og gert afar vel við sig í gegnum tíðina. Í forsetahöll hans hefur fundist safn fágætra bíla og einkadýragarður. Þá var í höllu hans veitingastaður og utan við hann golfvöllur.

Í gær var handtökuskipun gefin út á hendur Janúkovitsj, sem flúði land um síðustu helgi. Búið er að útnefna nýjan forseta til bráðabirgða. Það er Oleksander Túrtsjínov, forseti úkraínska þingsins.

Breska dagblaðið Guardian segir Janúkóvitsj hafa verið góður við sig eins og fyrrum kollegar hans í öðrum löndum og nefnir blaðið þá Ben Ali, fyrrverandi forseta Túnis, og Hosni Mubarak, fyrrum einræðisherra í Egyptalandi, í sömu umfjöllun. Vellystingar Janúkóvitsj segir í Guardian lýsandi fyrir auðsöfnun og spillingu í röðum ráðamanna og fámennrar elítu í Úkraínu sem hafi í áraraðir kreist allt sem hún gat út úr Evrópusambandinu á meðan almenningur hafi ekki haft það gott. Blaðið segir að mögulegt hefði verið að koma í veg fyrir þetta, spillingu í landinu og hugsanlegt peningaþvætti hefði eftirlit í nágrannaríkjunum verið hert.